Maris leggur áherslu á góðan starfsanda, þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og hreinskilni milli allra starfsmanna. Starfsmönnum ber að temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og sýna hver öðrum tilhlýðilega virðingu og jákvætt viðmót. Allir á vinnustaðnum þurfa að leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja neikvæða hegðun og stuðla að góðum samskiptum, starfsánægju og öruggu umhverfi.
Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi verður undir engum kringumstæðum umborið á vinnustaðnum. Upplifun einstaklingsins skiptir meginmáli þegar rætt er um einelti og aðra ótilhlýðilega hegðun. Sérhver þolandi verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber, frá hverjum og segja frá sé honum misboðið.
MARKMIÐ OG SKILGREININGAR
Stefnan og viðbragðsáætlun framfylgja settum lögum, 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ásamt reglugerð nr. 1009/2015 um um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum:
- Einelti
Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
- Kynbundin áreitni
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
- Kynferðisleg áreitni
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
- Ofbeldi
Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
SKYLDUR ATVINNUREKENDA
Atvinnurekanda er óheimilt að leggja starfsmann eða starfsmenn í einelti á vinnustað. Atvinnurekanda er jafnframt óheimilt að áreita starfsmann eða starfsmenn kynferðislega sem og á grundvelli kyns eða beita þá ofbeldi á vinnustað.
Atvinnurekandi skal haga vinnuaðstæðum á vinnustað í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað skv. II. kafla þannig að dregið sé úr hættu á að aðstæður skapist sem líkur eru á að leitt geti til eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis á vinnustaðnum.
Atvinnurekanda ber skylda til að láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað ekki viðgangast á vinnustað og skal hann gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé óheimil.
Við meðferð máls skal atvinnurekandi sýna varfærni og nærgætni í aðgerðum sínum með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsmanna í huga, meðal annars með því að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama.
SKYLDUR STARFSMANNA
Starfsmönnum er óheimilt að leggja annan starfsmann eða aðra starfsmenn sem og hlutaðeigandi atvinnurekanda í einelti á vinnustað. Starfsmönnum er jafnframt óheimilt að áreita annan starfsmann eða aðra starfsmenn sem og hlutaðeigandi atvinnurekanda kynferðislega sem og á grundvelli kyns eða beita þá ofbeldi á vinnustað.
AÐGERÐIR
Maris mun grípa til aðgerða gagnvart starfsmönnum sem leggja aðra í einelti, beita áreitni eða ofbeldi, t.d. með áminningu eða uppsögn. Kallaður verður til fagaðili sem sérhæfir sig í slíkum málum til að fara yfir umrætt málefni með þolenda og geranda. Á meðan mál er í ferli, þá mun stuðningur vera veittur frá sálfræðing til þolenda og geranda eftir því sem þörf krefur. Leiði mat á aðstæðum til þess að einelti, áreitni eða ofbeldi eigi sér ekki stað eða hafi ekki átt sér stað á vinnustaðnum skal samt sem áður grípa til aðgerða í því skyni að uppræta þær aðstæður sem kvartað hafði verið yfir eða bent verið á, séu aðstæðurnar enn til staðar, sem og í því skyni að koma í veg fyrir að aðstæðurnar komi upp aftur.
FRAMKVÆMD
Kynna þarf stefnuna og viðbragðsáætlun fyrir nýjum starfsmönnum við upphaf starfs til að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Stefnan og viðbragsáætlunin eru síðan rifjaðar upp reglulega á starfsmannafundum.
ANNAÐ
Komi upp atvik sem falla ekki beint undir EKKO, þá skal viðeigandi starfsmaður eða starfsmenn sem verða vitni af atviki, ávallt upplýsa næsta yfirmann um málið þannig að hægt sé bregðast við og gera viðeigandi ráðstafanir. Ef næsti yfirmaður er gerandi eða ekki við á þeim tímapunkti sem atvik kemur upp, þá skal upplýsa öryggisnefnd Mariss um málið. Öryggisnefndin er bundin þagnareið og mun koma málinu í réttan farveg.
Stefnuna og viðbragðsáætlun skal endurskoðuð á 3 ára fresti.